Velkomin(n) á heimasíðu Sóma þjóðar

Næst á döfinni er vinnusmiðja í Þjóðleikhúsinu með leikverkið „Húsfélagið“.

Sagan

Sómi þjóðar var stofnaður í kjallara Iðuhússins við Lækjargötu árið 2011. Hafist var handa að æfa Gálmu eftir Tryggva Gunnarsson, mitt á milli rykugra borða og tómra stóla, en rýmið hafði hýst illa ígrundaðan veitingastað áður en Sómi þjóðar hreiðraði þar um sig.

Rýmið var ávallt tímabundið og að lokum flutti hópurinn sig um set yfir í Norðurpólinn þar sem Gálma var frumsýnd 2011. Verkið hlaut góðar viðtökur og var tilnefnt til Grímuverðlauna þetta sama ár. 

Skandinavíski leikhópurinn Sticks & Stones fékk Sóma þjóðar í lið með sér árið 2012 til að gera PUNCH, en sýningin fjallaði um hrifningu okkar af sviðsettu ofbeldi. Sýningin var sýnd bæði á Akureyri, Reykjavík og í Noregi.

Næsta verkefni Sóma þjóðar var Ég er vindurinn eftir Jon Fosse. Frumsýnt var í Þjóðleikhúskjallaranum 2012. 

Í Tjarnarbíói 5. desember 2014 var svo verkið MP5 frumsýnt en það var skrifað, leikstýrt og leikið af Tryggva Gunnarssyni og Hilmi Jenssyni. Verkið er fyrsti hluti þríleiksins um geimfarana Ísak og Vilhjálm.

Á eftir fylgdi óperan Björninn sem frumsýnd var á Cycles Music Festival 2015. Sýningunni var boðið til Svíþjóðar og var því boðið tekið fagnandi.

Áfram hélt hópurinn að byggja upp arfleifð sína með frumsaminni fótbolta-óperu sem sýnd var á óperuhátíð í Kópavogi við frábærar undirtektir. Ísak og Vilhjálmur stigu einni aftur á svið í öðrum hluta þríleiksins: Könnunarleiðangur til KOI. Flóttamannavandinn var tekinn fyrir, en sýningin var tilnenfd til Grímuverðlauna.

Í kjölfarið frumsýndum við „Þúsund ára þögn“, devised sýningu um erfð áföll og þöggun minninga og hlaut sýningin einróma lof gagnrýnanda og áhorfenda og var sýnd fyrir fullu húsi í Mengi.

Síðasta sýning Sóma þjóðar var SOL. Sýningin var tilnenfd til þriggja Grímuverðlauna, og hlaut þau loks fyrir útvarpsútgáfuna, auk þess að vera eina verk íslensku leiklistasögunnar sem tvisvar hefur verið tilnefnt sem leikrit ársins. Nú bíðum við spennt eftir því að vita hvort við vinnum Prix Europa, evrópsku leiklistaverðlaunin í flokki útvarpsleikhúss, en verkið er tilnenft þar í fríðum flokki erlendra verka.

Vinnuaðferðir  

Sóma þjóðar er ætlað að vera frjáls samræðugrundvöllur um sviðslistir, ekki síður en eiginlegur leikhópur. Áhersla er lögð á sameiginlegt eignarhald allra þáttakenda verkefna, og deilda listræna ábyrgð.


Öllum aðstandendum er frjálst að taka þátt í öllu stigum og sviðum listsköpunarinnar og sækja innblástur og aðstoð að sama skapi á þverfaglegum grundvelli. 

Þó svo vinnuaðferðir okkar og nálgun sé ekki sú sama milli verkefna má segja að rauði þráðurinn sé að njóta vinnunnar. Allir þáttakendur verða að vera 100 prósent ánægðir með það sem á svið fer og ef svo er ekki þarf viðkomandi að koma með betri hugmynd, eða samverkamenn hans/hennar að sannfæra hann/hana um að það sem fram fer sé í raun snilld. Þetta finnst okkur sjálfsagt mál, að allir fái að njóta sín listrænt og það séu engir farþegar sem eru bara í vinnunni.

Framtíðarsýn

Hún er einföld: að gera gott leikhús eftir eigin höfði. Það felur í sér að þróa frekar vinnuaðferðir okkar, stuðla að framþróun listformsins
og skapa opnari og frjálsari skoðanaskipti milli listamanna innan
sviðslistanna. 

Sómi þjóðar